Nokkuð nýstárleg mótmæli áttu sér stað á aðalfundi Shell í London í vikunni. Um tólf umhverfissinnar, sem áttu hlut í félaginu, mættu á fundinn en einungis hluthafar fá sæti á aðalfundum félaga. Tóku þeir því nokkuð bókstaflega því þeir límdu sig fasta við sætin og upphófu hróp og köll til að mótmæla olíuvinnslu félagsins. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg.

Mótmælendurnir hrópuðu orðin „Shell verður að falla“. Athæfið tafði fundinn um þrjár klukkustundir, en fyrir utan fundarstaðinn voru enn fleiri mótmælendur, sem létu skoðun sína á félaginu í ljós. Lögregla var kölluð á vettvang til að fundurinn gæti haldið áfram.

Mótmælendahópurinn Extinction Rebellion sagði í tilkynningu að meira en 80 manns hefðu truflað fundinn, sem var haldinn í Westminster í London.