Hluthafar bresku matvöruverslunarkeðjunnar Somerfield hvetja stjórnendur til þess að hætta frekar við að selja félagið en að taka tilboði undir 220 pens á hlut.

"Ég myndi frekar vilja að hætt væri við söluna en að selja ódýrt," segir Mark Webster hjá State Street Global Advisors, sem á um 3% hlut í Somerfield. ?Ég yrði að skoða vandlega kosti og galla tilboðs undir 220 pens á hlut," segir Webster í samtali við blaðamann Financial Times.

Baugur reið á vaðið og gerði óbindandi tilboð í Somerfield fyrr á þessu ári. Breski bankinn Barclays, auðjöfurinn Robert Tchenguiz og fjárfestingasjóðurinn Apax stofnuðu til samstarfs við Baug um tilboð, en Baugur neyddist til þess að hætta þátttöku vegna Baugsmálsins.

Óbindandi tilboð hópsins hljóðaði upp á 205 pens á hlut og er virði tilboðsins um 1,1 milljarður punda. London Regional, sem er í eigu bresku Livingstone-bræðranna, og japanski bankinn Nomura hafa einnig hafa einnig látið í ljós áhuga á Somerfield.

Baugsmálið er talið hafa seinkað bindandi tilboði í Somerfield. Einnig hefur samdráttur í smásölu orðið til þess að margir sérfræðingar telja að hugsanlegir bjóðendur muni lækka tilboð sín. Breski fjármálamarkaðurinn væntir þess að gert verði formlegt tilboð í félagið í lok ágúst.