Kvika banki, TM og Lykill fjármögnun munu sameinast samkvæmt samþykkt stjórna fyrirtækjanna, þannig að hluthafar TM fá 54,4% í Kviku banka.

Vátrygingastarfsemi TM, undir nafninu TM tryggingar, sem og Lykill fjármögnun, verða dótturfélög hins sameinaða félags, ef allir fyrirvarar standast. Stjórnir félaganna telja raunhæft að ná fram 1,2 til 1,5 milljarða króna kostnaðarsamlegð af sameiningunni.

Marinó Örn Tryggvason og Sigurður Viðarsson, forstjórar félaganna, munu áfram gegna stöðum sínum, þar sem Marinó verður forstjóri Kviku og Sigurður Viðarsson verður forstjóri dótturfélagsins TM trygginga.

Fjármála- og rekstrarsviði Kviku verður skipt upp í tvö svið eftir samrunann; Ragnar Páll Dyer mun gegna starfi framkvæmdastóra fjármálasviðs og Ólöf Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lykils, mun hefja störf hjá Kviku og gegna starfi framkvæmdastjóra rekstrar- og þróunarsviðs.

Viðskiptablaðið sagði frá því í lok september að Kvika og TM hefðu hafið formlegar sameiningaviðræður, sem þau höfðu þvertekið fyrir að væru fyrirhugaðar í sumar. Í ársbyrjun fékk TM ríflega 9 milljarða kaup sín á Lykli samþykkt af Fjármálaeftirlitinu.

Setja fyrirvara við íþyngjandi skilyrða yfirvalda

Fyrirvararnir fyrir sameiningunni nú lúta að því að bæði eftirlitsstofnanir, það er Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið veiti samþykki sín fyrir sameiningunni sem og hluthafar félaganna, auk þess að yfirfærsla vátryggingastofns TM til TM trygginga gangi eftir samkvæmt áætlunum.

Það er að annars vegar veiti Fjármálaeftirlitið samþykki fyrir samrunanum sem og fyrir því að Kvika eigi virkan eignarhlut tryggingafélögunum TM tryggingum hf., TM líftryggingum hf., og Íslenskri endurtryggingu hf. Hins vegar að Samkeppniseftirlitið ógildi ekki samrunann eða setji íþyngjandi skilyrði fyrir samrunanum.

Stjórnir félaganna áætla að samlegð af samruna félaganna, án viðskipta- og einskiptikostnaðar, geti eins og áður segir numið allt að 1,5 milljörðum króna og hún náist að megninu til á árinu 2022.

Gert er ráð fyrir að kostnaðarsamlegð eftir árum verði eftirfarandi:

  • Árið 2021 verði samlegðaráhrif 500-600 m.kr. en einskiptiskostnaður 250-300 m.kr.
  • Árið 2022 verði samlegðaráhrif 1.000-1.100 m.kr. en einskiptiskostnaður 50-100 m.kr.
  • Eftir árið 2022 verði árleg samlegðaráhrif 1.200-1.500 m.kr. og óverulegir einskiptisliðir.