Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Félags fjárfesta, segir engan vafa í sínum huga að stjórnendur FL Group hafi farið illa út af sporinu í rekstri og stjórnun félagsins, en Vilhjálmur lagði átta spurningar fyrir aðalfund félagsins í fyrradag sem flestar lutu að háum rekstrarkostnaði þess og gífurlegu tapi.

Vilhjálmur segir ljóst að fyrrverandi forstjóri félagsins hafi fengið mun hærri greiðslur en strípuð laun, þvert á yfirlýsingar þar að lútandi í fjölmiðlum. Vilhjálmur gagnrýnir kjör stjórnenda fyrirtækja sem skráð eru í kauphöll og nefnir sérstaklega kjör forstjóra Spron í því sambandi, og kostnað við stjórnendaskipti í Glitni. Á nýlegum aðalfundi Spron voru laun stjórnarmanna lækkuð að hans tillögu.

„Innskot mitt hjá Spron var fyrst og fremst ábending til stjórnar um að hún fari að vinna sína vinnu en það var hún ekki að gera. Að sumu leyti fannst mér eins og hún væri gísl forstjórans,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir kaupréttarsamninga í „tómu rugli“ og séu þau starfskjör sem samþykkt eru á aðalfundum innantóm orð. „Það eru allir að samþykkja sama bullið, innihaldslaust. Það að koma þessu inn í lög hlutafélaganna er merkingarlaust vegna þess að hluthafafundurinn samþykkir nánast að veita óútfyllta ávísun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .