Fjárfestar sem um þessar mundir lögsækja Yahoo vegna þeirrar ákvörðunar stjórnar félagsins að hafna yfirtökutilboði Microsoft hafa nú beint málinu í nýjan farveg og bætt einum af stofnendum Yahoo, David Filo, við málið varnarmegin. Nú er málið höfðað á hendur stjórnar félagsins og Filo, en fyrirtækið sjálft er ekki lengur varnaraðili í málinu. Lögmaður stefnenda málsins segir stjórn Yahoo hafa brugðist skyldu sinni sem vörslumenn fjármuna hluthafa.

Margir hluthafa Yahoo eru óánægðir með ákvörðun félagsins um að hafna tilboði Microsoft, enda varðaði sú ákvörðun stjórnarinnar umtalsverða fjárhagslega hagsmuni hluthafanna. Upphaflega höfðuðu hluthafarnir mál á hendur stjórn félagsins til að reyna að koma í veg fyrir tilraunir hennar til að koma í veg fyrir að Yahoo rynni saman við annað fyrirtæki. Ef ekkert annað er til ráða hafa þeir sagst munu höfða skaðabótamál.

Hluthafar Yahoo halda því fram að forstjóri Yahoo, Jerry Yang, hafi ásamt Filo viljað tryggja sjálfstæði Yahoo vegna þeirra persónulegu hagsmuna. Filo og Yang stofnuðu Yahoo á námsárum sínum í Stanford háskólanum árið 1994 og eiga samtals tæplega 10% hlut í félaginu. Yang og Filo funduðu með forstjóra Microsoft í byrjun maí og settu þar fram tilboð um verð á hlutum í Yahoo fyrir Microsoft, sem hluthafar telja að hafi verið of hátt. Reuters hefur í frétt sinni um málið eftir lögmanni hluthafa Yahoo að það hafi ekki verið nein ástæða fyrir stjórn félagsins að láta Filo og Yang, tvær helstu hindranir yfirtöku Microsoft, vera í miðpunkti samningaviðræðna við Microsoft.