Auður Kristín Árnadóttir, hluthafi í Hval og dóttir Árna Vilhjálmssonar, fyrrverandi stjórnarformanns félagsins, lagði til á aðalfundi félagsins í síðustu viku að Hval yrði skipt í tvennt, annars vegar í hvalveiðihluta og hins vegar í fjárfestingarhluta. Tillagan var felld.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá lá fyrir aðalfundinum tillaga eins hluthafa þess efnis að Hval yrði skipt upp. Hluthafinn tilheyrir hvorki fjölskyldu Árna né eringja hans eða fjölskyldu Kristjáns Loftssonar, sem tók við stjórnarformennsku í Hval eftir andlát Árna. Tillagan um slitin á Hval var jafnframt felld.

Fjallað er um aðalfundinn í DV í dag. Þar er m.a. sagt að fjölskyldudeilur einkenni rekstur Hvals og rifjað upp að Birna Björk Árnadóttir, dóttir Árna Vilhjálmssonar og systir Auðar, hafi í síðustu viku skrifað harðorða grein sem birtist í Fréttablaðinu um hvalveiðar. Birna legst eindregið gegn hvalveiðum, færir rök fyrir því að hvalveiðar séu tímaskekkja og sverti orðspor Íslands á alþjóðavettvangi.