Hluthöfum í tryggingarfélögunum tveimur, TM og VÍS, hefur fækkað um helming frá því í byrjun maí þegar TM var skráð á markað þangað til í byrjun október samkvæmt tölum frá kauphöllinni. Hluthöfum hefur fækkað hlutfallslega mest í VÍS þar sem þeir voru 3.531 en voru orðnir 1.479 í október og hafði þá fækkað um 58,1%. Hluthöfum TM hefur fækkað úr 5.182 í 2.753 eða um 46,9% á sama tímabili. Þess ber að geta að umrædd félög eru þau síðustu sem voru skráð í kauphöllina. Í þeirra tilviki, líkt og flestra annarra, hefur hluthöfum fækkað mikið eftir að félögin voru skráð á markað.

Svipaða sögu má finna í tilviki skráningar Haga, Vodafone og Regins þegar umrædd félög voru skráð. Í desember síðastliðnum kom fram í Viðskiptablaðinu að eigendum Haga fækkaði um rúmlega helming á fyrsta ári félagsins á markaði. Hluta af skýringunni má eflaust rekja til svokallaðra kennitölusafnara eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um. Það eru aðilar sem skrá sig fyrir kaupum á bréfum á nokkrar mismunandi kennitölur. Ástæðan er sú að takmörk eru á hve mikið einstakir aðilar geta keypt og leita sumir því þess ráðs þegar umframeftirspurn er mikil að kaupa bréf í gegnum kennitölur vina eða kunningja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .