Frá ársbyrjun hefur hluthöfum í Marel fjölgað um tæplega 350 talsins. Þeir eru alls 2.146, samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands síðastliðinn föstudag. Staða hluthafa miðast við þann 20. mars síðastliðinn.

Verð hlutabréfa í Marel hafa farið hækkandi frá ársbyrjun. Alls nemur hækkunin um 18% en verð bréfa í dag er um 146 krónur á hlut. Svo virðist sem fjárfestar líti í auknum mæli til hlutabréfa, sé mið tekið af fjölgun hluthafa í Marel.

Stærsti eigandi í Marel er Eyrir Invest, sem heldur um rúmlega 33% hlutafjár. Sjö lífeyrissjóðir eru meðal þeirra tuttugu stærstu. Þeir eiga samtals 21,95% í félaginu. Þeirra stærstur er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 6,8% hlut. Fram kemur í tilkynningunni til Kauphallar að áætlað flot bréfa í Marel sé um 65%.