Á árinu 2016 fækkaði hluthöfum í Landsbankanum um 832 er bankinn keypti 133,5 milljónir eigin hluta í bankanum á verðinu 10,42 krónur á hlut.

Heildarfjárhæð kaupanna nam 1.391 milljón króna, en langflestir seldu bréfin sín í september en þá hófst endurkaupaáætlun bankans á eigin bréfum.

Með endurkaupaáætluninni var ætlunin að bæði lækka eigið fé bankans og gefa hluthöfum tækifæri til að selja hluti sína, en þeim hafði verið það óheimilt áður að því er fram kemur í Fréttablaðinu .

Endurkaupaáætluninni lauk 24. febrúar síðastliðin með þriðju og síðustu lotunni en þá seldu hluthafar bréf í félaginu fyrir rétt rúmar 90 milljónir króna.

Enginn af framkvæmdastjórum bankans seldi bréf sín en árið 2013 fengu um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans dreift til sín um 2% eignarhlut sem hafði verið í eigu Landskila. Alls voru hluthafar Landsbankans 1.833 talsins í september 2016 samkvæmt frétt á vefsíðu bankans.

Þá áttu um 870 núverandi starfsmenn bankans, um 530 fyrrverandi starfsmenn og um 430 fyrrum stofnfjárhafar í tveimur sparisjóðum samtals 0,89%. Bankaráðsmenn Landsbankans eiga ekki hluti í bankanum, en bankinn sjálfur átti þá 0,91% hlut í bankanum.

Þann 24. febrúar síðastliðinn átti Ríkissjóður Íslands 98,20% hlut í bankanum að því er fram kemur á heimasíðu bankans, en þá átti Landsbankinn hf. 1,50%, Tryggingarsjóður sparisjóða 0,04%, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 0,02%, Vestmannaeyjabær 0,01%, Vinnslustöðin 0,01% og aðrir hluthafar minna.