Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Og Vodafone, segir að ekki sé að myndast yfirtökuskylda í Og Vodafone. "Svo er ekki," segir hann en í gær keypti Og Vodafone eigin bréf af Norðurljósum en Norðurljós áttu 6,74% í félaginu. Fyrir þau viðskipti áttu félög sem tengjast eignarböndum tæp 44% í Og Vodafone. Um er að ræða Baug Group, Norðurljós þar sem Baugur er hluthafi, Grjóta en þar er Baugur einnig hluthafi og Fons eignarhaldsfélag sem er meðal annars í eigu Pálma Haraldssonar, náins viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Lög um verðbréfaviðskipti gera ráð fyrir því að ráði menn 40% hlutafjár í félagi, beri þeim að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Í vikunni keypti Og Vodafone allt hlutafé tveggja dótturfélaga Norðurljósa, Íslenska útvarpsfélagsins og Fréttar. Fá Norðurljós meðal annars greitt fyrir það með nýjum hlutabréfum í Og Vodafone að nafnvirði 810 milljónir króna. Eftir að þau viðskipti hafa gengið í gegn munu Norðurljós eiga ríflega 18% hlut í Og Vodafone og þar með munu Baugur, Norðurljós og Grjóti, ráða um 46% hlutafjár í Og Vodafone.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, sem jafnframt er stjórnarformaður Norðurljósa, segir að þrátt fyrir þetta verði öðrum hluthöfum ekki gert yfirtökutilboð - stjórnendur félaganna líti svo á að það sé alveg klárt að ekki sé að myndast yfirtökuskylda og þeir hafi fullan áhuga á að vinna með öðrum hluthöfum Og Vodafone. "Við vonum að við eigum samleið með hluthöfum öllum til lengri tíma, þetta er stórt og öflugt félag sem á sér bjarta framtíð." Skarphéðinn segir jafnframt að málefni félagsins verði skýrð fyrir hluthöfum Og Vodafone á hluthafafundi sem hefur verið boðaður í næstu viku.