Undanfarna viku hefur fjöldi fólks ritað greinar um James M. Buchanan, áhrif hans á hagfræðina og á greinarhöfunda sjálfa. Buchanan, sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1986 fyrir framlag sitt til almannavalsfræðinnar í hagfræði, lést hinn 9. janúar síðastliðinn.

Í New York Times er vitnað í hagfræðinginn Tyler Cowen, sem sagði að Buchanan hefði spáð réttilega fyrir um áhrif þess að reka ríkissjóð með halla til að þjóna skammtímahagsmunum. „Á endanum stofnanavæðum við óábyrga hegðun í stjórn alríkisins, sem er stærsta og mikilvægasta stofnun samfélagsins.“

Fallegustu eftirmælin voru hins vegar líklega þau sem hagfræðingurinn Steve Horwitz skrifaði. Þar sagði m.a. „Hann var steyptur í mót fræðimannsins af gamla skólanum. Hann var víðlesinn og hæfilega efins um ágæti þess að breyta hagfræði í einhvers konar undirgrein verkfræðinnar. Hann var þegar á botninn er hvolft húmanisti og frjálslyndur maður í elsta og besta skilningi þessara hugtaka. En best af öllu var hann algerlega laus við að bera einhverja lotningu fyrir gráðum frá fínum skólum. Eins og hann orðaði það sjálfur þá var hann hluti af hinum „óþvegna meirihluta“ almennings.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.