Mikið af þjónustu tæknirisans Google, þar á meðal YouTube, Gmail og Google Docs, lágu niðri í um það bil hálftíma frá hádegi í dag. Leitarvélin sjálf virkaði þó enn.

Talsverðar umræður hafa skapast um málið á samfélagsmiðlinum Twitter undir myllumerkinu #GoogleDown. Samkvæmt fréttamiðlinum Edinburgh News virtist þjónustan liggja niðri um allan heim.

Svo virðist sem vandamálið hafi byrjað í kring um hádegi. Elstu tíst sem blaðamaður finnur um málið eru frá því rétt eftir hádegi, en samkvæmt vefsíðunni Downdetector.com – sem sýnir fjölda tilkynninga vegna vandamála við þjónustu vefja – fór fjöldinn fyrir Google úr eins stafs tölu í tæp 10 þúsund klukkan 11:49 laust fyrir hádegi, og er nú kominn vel yfir 100 þúsund.

12:46: Fréttin hefur verið uppfærð.