Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis, vill að hluti kvótans verði tekinn af útgerðum og boðinn upp á opnum markaði. Vill hann að þetta verði gert í stað þess að útgerðir borgi veiðigjöld.

Segir hann að með þessu opnist leiðir fyrir nýliða eða þá sem hafa of litlar veiðiheimildir til að komast inn, en á sama tíma verði að girða fyrir það að stærri útgerðir nái öllum pottinum til sín. Jón sér fyrir sér að tugir þúsunda tonna verði á markaði en hann segist hafa rætt þetta mál við forsætisráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson.

Þessar hugmyndir eru í andstöðu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, og sagði Jens Garðar Helgason í viðtali við Viðskiptablaðið snemma á árinu að þjóðarbúið tapi á því að bjóða aflaheimildir upp á hverju ári. Muni það koma í veg fyrir langtímaáætlanir og -fjárfestingar í greininni. Þetta kemur fram í frétt í Fiskifréttum .