Hluti af óveðtryggðum skuldum fasteigna- og umsjónarfélagsins Nýsis er fallinn á gjalddaga.

Samtals er talið að skuldirnar nemi um 15 milljörðum króna og að þær séu að mestu leyti í formi skuldabréfa og víxla.Um 7-10 milljarðar eru á gjalddaga á þessu ári, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Höskuldur Ásgeirsson, forstjóri Nýsis, segir kröfuhafa hafa skilning á stöðu félagsins og að þeir hafi ákveðið að sýna biðlund á meðan unnið sé að endurfjármögnun þess.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru skuldabréfin í meirihlutaeigu lífeyrissjóða, verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða.

Samtals eru skuldir Nýsis, þ.e.a.s. óveðtryggðar og veðtryggðar, á sjötta tug milljarða króna og er Landsbankinn helsti lánveitandi félagsins. Bankinn hefur sömuleiðis haft umsjón með endurfjármögnun Nýsis og í júní gerði hann kröfuhöfum tilboð um 40-50% lúkningu skulda en þeir samningar gengu ekki eftir.

„Vinnan við endurfjármögnun félagsins stendur enn yfir en við stefnum á að klára hana á næstu vikum frekar en næstu mánuðum,“ segir Höskuldur.

Í sumar voru jafnframt uppi hugmyndir um aukningu hlutafjár og sölu eigna til að grynnka á skuldum félagsins. „Hvort tveggja er áfram í skoðun,“ segir Höskuldur.