Fjármunirnir sem Síminn fær fyrir söluna á Mílu verða nýttir til innri vaxtar og vafalaust verður lagt til að hluti þeirra verði greiddur til eigenda. Þetta segir Orri Hauksson, forstjóri Símans. Næstu mánuðir verði nýttir til að skoða hvort og þá hvaða tækifæri til ytri vaxtar séu til staðar.

Tilkynnt var um það fyrir tíu dögum að Síminn og franska sjóðstýringarfélagið Ardian hefðu hafið einkaviðræður um möguleg kaup þess síðarnefnda á Mílu. Þeim viðræðum lauk fimm dögum síðar með undirritun á kaupsamningi á öllu hlutafé í fjarskiptafélaginu. Kaupverð er 78 milljarðar króna og áætlaður söluhagnaður Símans um 46 milljarðar króna, að teknu tilliti til kostnaðar sem af sölunni hlýst. Íslenskum lífeyrissjóðum mun að auki bjóðast að eignast um fimmtungshlut í Mílu.

Áður en til undirritunar kom hafði Síminn gert stjórnvöldum viðvart um fyrirhugaða sölu en opinberir aðilar þurfa að gefa grænt ljós fyrir sitt leyti til að hún geti gengið í gegn. Samkeppniseftirlitið mun kanna samrunann. Eins hefur Fjarskiptastofa, áður Póst- og fjarskiptastofnun, náið eftirlit með Mílu og kannar starfsemi félagsins, þótt stofnunin hafi ekki áhrif á eignarhald félagsins.

Gæti teygst inn á nýtt ár

Að auki hafði Síminn verið í samskiptum við samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið um ýmis atriði er varða þjóðaröryggi, til að mynda að tryggja að stýribúnaður kerfisins verði áfram hér á landi. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöður þessara samtala liggja fyrir en viðbúið er að skoðun Samkeppniseftirlitsins muni teygja sig nokkuð inn á nýtt ár.

„Það er mjög jákvætt fyrir íslenskt viðskiptalíf og stuðningsyfirlýsing við hagkerfið og þann ramma sem stjórnvöld setja því, að svo stór langtíma fjárfesting berist hingað inn. Þessir aðilar eru þaulvanir uppbyggingu innviða og hafa lýst því yfir að þeir vilji flýta fjárfestingum, sérstaklega í ljósleiðara á landsbyggðinni og í 5G farsímadreifingu. Það nýtist fjarskiptagreininni og neytendum í landinu,“ segir Orri Hauksson.

Að sögn forstjórans liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti í hvað fjármunirnir, sem fást fyrir söluna, munu fara. Þó liggur fyrir að klára þarf nokkur innri verkefni sem hafa setið á hakanum.

„Fyrst þurfa kaupin að ganga í gegn áður en hægt er að verja andvirðinu til uppbyggilegra verkefna. Ég tel allar líkur á því að á að lagt verði til að greiða hluta af andvirði sölunnar til hluthafa en engin ákvörðun hefur verið tekin um slíkt. Næstu mánuðir munu einnig vísast fara í að kanna möguleg tækifæri til ytri vaxtar,“ segir Orri. Ekkert slíkt tækifæri liggi þó beint við á þessari stundu og mögulegt að Síminn verði að horfa út fyrir sína kjarnastarfsemi ætli félagið sér í ytri vöxt innanlands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .