Nú er komið í ljós að frambjóðendur Repúblikana og Demókrata í neðri deild ríkisþingsins í Virginíu í Bandaríkjunum fengu jafnmörg atkvæði og verður því sigurvegarinn valinn af handahófi.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær þá leit út um tíma sem frambjóðandi Demókrata, Shelly Simonds hefði tryggt sér sigurinn með einu atkvæði, það er 11.608 atkvæði á móti 11.607 atkvæðum sitjandi fulltrúa Repúblikana, David Yancey. Ef Repúblikanar missa þingsætið mun það þýða að þeir munu missa meirihluta sinn í þingi Virginíuríkis.

Vafaatkvæði úrskurðað Repúblikunum í hag

Repúblikanar fengu svo eitt vafaatkvæði úrskurðað gilt, en frétt Business Insider sýnir atkvæðaseðilinn þar sem merkt hafði verið við báða frambjóðendur, en síðan strikað yfir merkinguna við fulltrúa demókrata.

Að öðru leyti kaus viðkomandi kjósandi fulltrúa Repúblikana í öllum hinum kosningunum sem greitt var atkvæði um á sama tíma. Þrír dómarar úrskurðuðu atkvæðið gilt fyrir fulltrúa Repúblikana og því stendur jafnt á frambjóðendunum.

Nú mun hlutkesti þurfa að ráða úrslitunum, en ekki er ljóst hvernig að því verði staðið, heldur verður það ákvörðun kjörstjórnar. Hefðin býður að nafn sé dregið úr hatti, venjulega gamaldags þriggja horna hatti, en einnig kæmi til greina að setja nöfnin í kúlur sem dregið yrði á milli eða jafnvel yrði dregin strá.

Árið 1971 var valið eftir sams konar jafntefli með því að maður sem bundið var fyrir dró umslög upp úr verðlaunabikar.