Greiningardeild Kaupþings hefur hækkað verðmat sitt á Alfesca í 4,9 krónur á hlut úr 4,7 krónur á hlut og tólf mánaðamarkgengi setur hún í 5,4 krónur á hlut úr 5,2, frá síðasta verðmati. Gengi félagsins við lok markaðar í dag er 4,7, samkvæmt upplýsingum frá M5.

?Að okkar mati eru kaup félagsins á franska skelfiskframleiðandanum Adrimex til þess fallin að auka virði félagsins til lengri tíma litið. Við höldum ráðgjöf okkar varðandi Alfesca óbreyttri, eða hlutlaust (e. Neutral),? segir í verðmatinu.

Þar segir að þar sem páskarnir eru snemma í apríl í ár má gera ráð fyrir því að vörur með háa framlegð muni hafa byrjað að seljast í lok mars. ?Tvennt vinnur þó á móti framlegð fjórðungsins en það er annars vegar laxaverðið sem hefur haldið áfram að sveiflast. Einnig mun uppfærsla á birgðum Adrimex í samband við kaupin á því félagi hafa neikvæð áhrif á framlegð félagsins til skemmri tíma litið. Þar af leiðandi teljum við að þessi þriðji fjórðungur rekstrarárs félagsins standi í járnum og að hagnaðurinn verði um núllið,? segir í verðmatinu.