Greiningardeild Kaupþings hefur gefið út verðmat á FL Group. Tólf mánaða markgengi setur hún í 31,7 krónur á hlut og er ráðgjöfin til fjárfesta hlutlaust (Neutral). Við lok markaðar í dag var gengið 30,2 krónur á hlut, samkvæmt upplýsingum frá M5.

?Það er okkar mat að núverandi markaðsverð FL Group endurspegli ekki verðmæti undirliggjandi eigna félagsins. Hins vegar er þetta ekkert nýtt þar sem viðskipti með bréf í félaginu hafa alltaf verið með álagi, eða allt frá þeim tíma er félaginu var breytt í fjárfestingarfélag.

Við gerum ráð fyrir að fjárfestar muni áfram vera tilbúnir að kaupa bréf í félaginu með álagi, meðal annars vegna hæfni FL Group til að breyta eignasafni sínu og koma markaðinum á óvart með því að ráðast í eða fara út úr fjárfestingum,? segir greiningardeildin.

Hún segir eignasafn FL Group samanstandi að mestu af skráðum hlutabréfum og eru bréf félagsins í Glitni stærsta einstaka eign félagsins, en þar á eftir koma eignarhlutar í AMR Corp., Finnair og Royal Unibrew.

?Veltufjáreignir eru umtalsverður hluti af eignarsafi FL Group en af þeim eru erlend og innlend hlutabréf fyrirferðamest. Óskráðar eignir FL Group voru um áramótin á bókfærðu verði 15 milljarðar króna. Við gerum ráð fyrir nokkrum duldum verðmætum í óskráðum eignum FL Group, aðallega í eign félagsins í hollenska drykkjavöruframleiðandanum Refresco en félagið hefur aukið umsvif sín verulega að undanförnu,? segir greiningardeildin.

Hún segir að árið 2006 hafi verið mjög gott hjá FL Group og hagnaðist félagið um 44 milljarða á árinu en salan á Icelandair hafði mikil áhrif á afkomu ársins. ?Við gerum ekki ráð fyrir að FL Group muni hagnast verulega á óskráðum eignum sínum í ár og að afkoma FL Group muni því að mestu ráðast af þróun hlutabréfamarkaða á árinu bæði hér heima og erlendis,? segir greiningardeildin.