Það sem af er ári hafa breytinga í verði hlutabréfa aðallega endurspeglað hreyfingar stórra fjárfesta á markaðinum, en þrátt fyrir að vera langstærstu eigendur hlutabréfa hafa lífeyrissjóðirnir lítið komið við sögu að undanförnu. Sveinn Þórarinsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir þó engin merki um að lífeyrissjóðirnir hafi dregið sig út af markaðinum þótt ekki hafi farið mikið fyrir þeim að undanförnu.

„Þeir gengdu auðvitað lykilhlutverki í að byggja upp markaðinn að nýju eftir hrun. Síðan þá hafa þeir notið ávaxtanna og ekki gert stórar breytingar á stöðum sínum. Einhverjir hafa auðvitað losað stöður sínar í hækkunarferli Marels og þá hafa fjármunir orðið til sem mögulega hafa stutt við hlutabréfamarkaðinn. Hve mikið lífeyrissjóðirnir seldu í Marel og hvort söluhagnaðurinn hafi farið aftur inn á hlutabréfamarkaðinn liggur hins vegar ekki fyrir. Lífeyrissjóðirnir eru í eðli sínu íhaldsamir fjárfestar sem hreyfa ekki mikið stöður sínar. Þetta hlutleysi hefur einkennt fjárfestingar þeirra hingað til og ég á ekki von á að það breytist mikið í náinni framtíð,” segir Sveinn.

Hlutleysi lífeyrissjóðanna og litlar og hægar breytingar á stöðutökum getur líka talist til ókosta. Frá sjónarhóli fyrirtækjanna er varla til betri hlutahafi en sá sem bíður þolimóður og hleypur ekki frá borði þótt babb komi í bátinn, eins og lífeyrissjóðirnir. Hins vegar má einnig líta svo á að hlutleysi lífeyrissjóðanna komi niður á virkni markaðarins þegar stjórnendum fyrirtækja er hvorki refsað fyrir mistök né verðlaunaðir fyrir góða árangur.

Stefán Broddi, hagfræðingur hjá Arion banka, segir tilað mynda að mögulega væri til bóta ef sparnaður landsmanna væri í höndum virkari fjárfesta. „Nær allur sparnaður almennings er í lífeyrissjóðum og þess vegna eru lífeyrissjóðir langmikilvægustu fjárfestar landsins. Um 15-20% af launakostnaði rennur í lífeyrissjóði. Þar með byggist upp mikill sparnaður í landinu inni í lífeyriskerfinu. Um leið er annar sparnaður heimila oft á tíðum mjög lítill og fjarlægð almennings frá því sem gerist á eignamörkuðum of mikil.

Almenningur upplifir sig nær alltaf sem skuldara en sjaldnast sem fjármagnseigendur. Gagnvart hlutabréfamarkaðinum kemur þetta fram í því að beint eignarhald almennings er lítið og beinir hluthafar fáir. Ég held það væri allra hagur að annars vegar að almenningur hefði meira um það að segja hvernig sparnaði er ráðstafað og hins vegar að þeir sem stýra sparnaði almennings séu áberandi í umræðu um rekstur fyrirtækja og fjárfestingar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .