16 fyrirtæki og 2 sveitarfélög hlutu í gær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA en auk þess bættust 11 fyrirtæki og opinberir aðilar ásamt 3 sveitarfélögum í hóp þeirra aðila sem taka þátt í Jafnvægisvoginni. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Ráðstefnan Jafnrétti er ákvörðun fór fram á Grand Hóteli í gær, mikill fjöldi þátttakenda fagnaði með aðilum sem hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogar. Í tilkynningunni segir að árangur Jafnvægisvogarinnar sé sýnilegur eftir fyrsta ár verkefnisins. Samkvæmt nýlegri könnun þá hafi fyrirtækin sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar í fyrra aukið hlutfall kvenna í millistjórnendastöðum um 15% og stjórnendastöðum um 11%. Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar\TBWA og Morgunblaðið.

Sextán fyrirtæki og tvö sveitarfélög hlutu viðurkenningu

Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til sextán fyrirtækja og tveggja sveitarfélaga úr hópi þeirra aðila sem undirrituðu viljayfirlýsingu á síðasta ári og tóku þátt í könnun um aðgerðir sem gripið var til. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í framkvæmdastjórn og stjórn var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar haustið 2018 hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim fyrirtækjum sem hafa náð markmiðunum. Auk þess vekja þátttakendur í Jafnvægisvoginni athygli á jafnréttismálum innan sinna fyrirtækja með ýmsum öðrum hætti.

Skýr framsetning lykilmælikvarða

„Að setja fram lykilmælikvarða á árangri er nauðsynlegt til að tryggja aðhald og góða frammistöðu. Með mælaborði Jafnvægisvogarinnar eru allar helstu opinberar upplýsingar um stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og innan hins opinbera gerðar aðgengilegar á einfaldan og skýran hátt.

Ljóst er að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sjá hag í því að vinna að jafnréttismálum þegar kemur að æðstu stjórnendum sveitarfélaga. Á ráðstefnunni undirrituðu Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær og Seltjarnarnesbær viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar og bættust þar með í hóp sveitarfélaga sem undirrituðu fyrir ári síðan. Á ráðstefnunni í dag skrifuðu 11 fyrirtæki undir viljayfirlýsingu um að beita sér fyrir auknu kynjajafnvægi innan sinna vébanda og vinna að markmiðum Jafnvægisvogar FKA næstu fimm árin. Segja má að töluverð fjölgun eigi sér stað í hópi þeirra fyrirtækja og opinberra aðila sem sjá sér hag í því að taka þátt í þessu hreyfiaflsverkefni enda eru rannsóknarniðurstöður á eina leið. Fjölbreyttur mannauður hefur jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja sem og starfsánægju og frammistöðu í starfi, stuðlar að betri ákvarðanatöku og aukinni verðmætasköpun þar sem nýsköpun og vöxtur verður frekar í hópi fólks með ólíkar skoðanir og bakgrunn. Fyrirtækin hafa þannig sýnt í verki að þau vilja virkja allan mannauðinn,” segir i tilkynningunni.

Eftirfarandi fengu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar:

  • Akureyrarbær
  • Árnasynir auglýsingastofa
  • Deloitte ehf
  • Guðmundur Arason ehf
  • iClean ehf
  • Íslandsbanki
  • Íslandshótel
  • Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins
  • Mosfellsbær
  • Nasdaq Iceland hf.
  • Olíuverzlun Íslands ehf
  • Pipar \ TBWA
  • Reiknistofa Bankanna
  • Rio Tinto á Íslandi
  • Sagafilm ehf
  • Sjóvá
  • VÍS
  • Vörður tryggingar hf.