Útflutningur á vöru og þjónustu frá Íslandi þarf að aukast um ríflega helming að raunvirði ef vöxtur í útflutningi á að geta fylgt 3% hagvexti næstu 20 árin. Þetta kemur fram í skýrslunni The Icelandic Economy sem Viðskiptaráð Íslands (VÍ) gefur út í dag. Skýrslan fjallar um stöðu efnahagsmála á Íslandi nú, nýlega atburði í stjórnmálum, viðskiptum og efnahagslífi og langtímahorfur í hagkerfinu.

Þessi sviðsmynd er byggð á Íslandsskýrslu bandaríska ráðgjafafyrirtækisins McKinsey frá árinu 2012. Í þeirri skýrslu kom fram að ef 4% hagvöxtur ætti að reynast sjálfbær á ársgrundvelli frá 2012–2030 þyrfti útflutningur að aukast um ríflega 1.000 milljarða króna að raunvirði. Fékk þessi niðurstaða í kjölfarið nafnið „þúsund milljarða áskorunin“. Með sjálfbærum hagvexti er átt við að hann sé drifinn áfram af útflutningi en ekki með auknum viðskiptahalla við útlönd sem leiðir til erlendrar skuldsetningar. Á árunum fyrir fjármálakreppuna sem reið yfir árið 2008 var hagvöxtur að mestu leyti drifinn áfram af viðvarandi viðskiptahalla og erlendri skuldsetningu sem varð til þess að fjármálakreppan varð eins djúp og raun bar vitni. Í skýrslunni kemur fram að lærdómurinn sé sá að vöxtur í útflutningi þurfi að minnsta kosti að vera jafn hagvexti. Verði þau skilyrði uppfyllt mun útflutningur styðja við viðskiptajöfnuð og tryggja sjálfbæran hagvöxt.

Þörf á nýjum útflutningsgreinum

Í gegnum tíðina hafa Íslendingar treyst á nýtingu náttúruauðlinda til þess að drífa áfram þróun og hagvöxt. Að mati Viðskiptaráðs þarf bróðurpartur af nýjum útflutningi þó að koma frá hinum svokallaða alþjóðageira. Alþjóðageirinn samanstendur af fyrirtækjum sem framleiða vörur eða þjónustu sem eru óháðar náttúruauðlindum og eru í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Það má því segja að alþjóðageirinn sé útflutningur á þekkingu sem byggir á hugverki og tækni

Í skýrslunni eru nefndar tvær meginástæður þess að vöxtur í útflutningi þurfi að koma frá alþjóðlega geiranum. Í fyrsta lagi er vöxtur geirans engar skorður settar þar sem hann treystir ekki á náttúruauðlindir. Í öðru lagi getur ört vaxandi alþjóðageiri leyst úr læðingi framleiðniaukningu sem gæti sérstaklega smitast yfir í innlenda þjónustugeirann. Þrátt fyrir að framleiðni á Íslandi hafi aukist undanfarin ár er hún minni en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við.Í staðinn hafa Íslendingar unnið fleiri vinnustundir að meðaltali en samanburðarþjóðir okkar. Hefur framleiðni sérstaklega aukist í geirum sem hafa orðið fyrir áhrifum af fjölgun ferðamanna og tækniþróun. Aukin framleiðni í innlenda geiranum gæti gert það að verkum að hægt væri að færa auðlindir, þá sérstaklega vinnuafl, yfir í alþjóðageirann sem gæti drifið áfram frekari vöxt í útflutningi. Þetta myndi leiða af sér jákvæða hringrás af auknum útflutningi og framleiðni. Í síðasta lagi telur VÍ að sterkur alþjóðageiri muni auka fjölbreytni í útflutningi sem á sama tíma auki stöðugleika í greiðslujöfnuði og hagkerfinu í heild sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .