Tæknifyrirtækið Unity Software, sem Davíð Helgason stofnaði ásamt tveimur öðrum árið 2004, hyggst fara á markað undir auðkenninu „U“. Fyrirtækið mun sækjast eftir allt að 100 milljónum dollara, eða 13,8 milljörðum króna, í frumútboði í New York Kauphöllinni.

Unity býr til hugbúnað sem fjölmargir tölvuleikir byggjá á en hugbúnaður félagsins er sá vinsælasti meðal þeirra sem búa til leiki fyrir snjallsíma. Í skráningargögnum fyrirtækisins segir að 53% af þúsund vinsælustu leikjunum á App Store og Google Play á síðasta ári hafi byggt á hugbúnaði Unity. Á síðast ári voru leikirnir sóttir í um 3 milljarða skipta á meira en 1,5 milljarða tækja.

Hlutur Davíðs virði 36 milljarða króna?

Davíð, sem starfaði sem forstjóri Unity frá stofnun til ársins 2014, á 4,4% hlut í félaginu eða um 10,4 milljónir af samtals 238,4 milljónum hlutabréfum. Ekki er tekið fram verð á hvern hlut eða hve stór hluti af fyrirtækinu verður boðinn út. Ef miðað er við sex milljarða dollara verðmat frá fjármögnunarumferð í fyrra þá er hlutur Davíðs metinn á 262 milljónir dollara eða um 36 milljarða króna, miðað við núverandi gengi krónunnar. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Davíð hann megi ekki mega tjá sig um útboðið.

Einnig kemur fram að Unity hafi greitt 374 þúsund dollara, eða um 51,7 milljónir króna, á árunum 2017-19 fyrir ráðgjafastörf frá félaginu Foobar Technologies ApS en Davíð er eini hluthafi þess. Ráðgjafastörfunum lauk á síðasta ári.

Taprekstur frá upphafi en sterkur tekjuvöxtur

Fyrirtækið hefur aldrei skilað hagnaði frá stofnun og samanlagður halli þess nemur 569 milljónum dollara í dag. Tap þess lækkaði þó um 19,3% á fyrri helmingi ársins samanborið við sama tímabil í fyrra og nam 54 milljónum dollara. Unity tapaði 163 milljónum dollara á árinu 2019 og 132 milljónir dollara árið 2018.

Á móti kemur var tekjuvöxtur þess 39% á fyrri helmingi ársins samanborið við sama tímabil í fyrra og um 42% milli áranna 2018 og 2019. Tekjur Unity námu 351 milljón dollara á fyrri helmingi ársins og 542 milljónum dollara árið 2019. Starfsmenn félagsins fjölgaði úr 2.715 í 3.379 á fyrstu sex mánuðum ársins.

Fyrirtækið fjárfesti yfir 450 milljónum dollara í rannsókn og þróun (R&D) á síðustu tveimur fjárhagsárum og fram kemur að 56% af vinnuafli félagsins hafi komið að þessu sviði. Á fyrri helmingi ársins var kostnaður vegna rannsóknar og þróunar meira en helmingur af rekstrarkostnaði fyrirtækisins. Meðal vara sem fyrirtækið hefur nýlega hannað er Unity Simulation , sem mun geta nýst á sviði sjálfkeyrandi bíla, þjarkafræði (e. robotics) og sjálfstýrikerfa í iðnaði.

Eignir félagsins námu 1,3 milljörðum dollara í lok júní en skuldir þess voru 642 milljónir dollara og eigið fé 647 milljónir dollara.

Stærstu bílafyrirtæki og arkitektastofur heims viðskiptavinir

Unity segist einnig sjá aukinn áhuga frá leiðandi fyrirtækjum í öðrum iðnuðum en tölvuleikjaiðnaðinum. Það nefnir fyrirtæki sem starfa á sviði arkitektúr, verkfræði- og framkvæmdum, samgöngum, iðnaðarframleiðslu, kvikmynda og í bílaiðnaðinum. Fram kemur að tölvukerfið sé notað af átta af tíu stærstu arkitetkekta, verkfræðihönnunnar- og hönnunarfyrirtækjum heims, þegar litið er til tekna árið 2019. Einnig eru níu af tíu stærstu bílafyrirtækjum meðal viðskiptavina.

Viðskiptavinum, sem kaupa þjónustu fyrir meira en 100 þúsund dollar á ársgrundvelli, hefur fjölgað um 73% á tveimur árum og eru í dag 716 talsins. Um 74% af tekjum Unity koma frá þessum viðskiptavinum. Fyrirtækið segist einnig vera með rúmlega hundrað þúsund smærri viðskiptavini.

Í frétt CNBC segir að tímasetning útboðsins sé góð þar sem fjármálamarkaðir séu sterkir um þessar mundir og Epic Games, einn helsti samkeppnisaðili Unity, á í réttardeilum við Apple vegna brota á reglum App Store. Epic segir Apple hafa hótað að gera hönnuðaaðgang fyrirtækisins óvirkan sem gæti leitt til þess að ekki yrði hægt að uppfæra Unreal Engine hugbúnaðartæknina í iPhone og Mac-tölvum.