Stjórn Eglu hf., hefur nú ákveðið að 10,82% hlutur félagsins í Kaupþingi banka hf. færist beint undir hollenskt eignarhaldsfélag, Kjalar Invest BV frá og með 27. september 2006 eins og kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Eignarhaldinu verður þannig háttað að félagið mun, eftir að samruni við Fjárfestingarfélagið Vendingu ehf. er genginn í gegn, fara með 99,99% hluti í dótturfélagi sínu, Kjalar Holding BV, sem á alla hluti í Kjalar Invest BV, sem aftur mun þá eiga samtals 10,82% í Kaupþingi banka hf. Kjalar ehf., á 0,01% hluti í Kjalar Holding B.V. á móti Eglu hf.

Eignarhaldi Eglu hf. og Fjárfestingarfélagsins Vendingar ehf. eftir samruna verður þannig háttað að félagið verður alfarið í eigu sameinaðs félags Kers hf. og Kjalar ehf. sem aftur er að stærstum hluta í eigu Ólafs Ólafssonar.

Egla hf. fer með ráðandi hlut í Kaupþingi banka hf. Fyrir liggur að Fjármálaeftirlitið gerir engar athugasemdir við ofangreinda eignatilfærslu