Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í endanlegri orkunotkun aðildarríkja Evrópusambandsins var að meðaltali 15,3% árið 2014, samkvæmt nýbirtum tölum frá framkvæmdastjórn ESB. Greint er frá þessu á vef Samorku .

Þar kemur fram að flest aðildarríkin séu á góðri leið með að ná markmiði Evrópusambandsins um 20% meðaltal árið 2020. Hlutfallið er hæst í Svíþjóð þar sem það nemur 51,1%, en lægst er hlutfallið á Möltu þar sem það nemur aðeins 2,7%. Hlutfallið er einnig undir 5% í Lúxemborg, Bretlandi og Hollandi.

Þess er getið á vef Samorku að til samanburðar sé þetta hlutfall 76% á Íslandi. Hér séu 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum en einnig 99% allrar orku til húshitunar. Hins vegar sé flutt inn talsvert af jarðefnaeldsneyti, einkum til notkunar í samgöngum og sjávarútvegi.

Tölur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins má sjá hér.