*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 26. nóvember 2004 15:22

Hlutur erlendra fjárfesta lítið aukist

einstaklingar stærri en lífeyrissjóðir

Ritstjórn

Erlendir aðilar eiga aðeins 9% af skráðu hlutafé í Kauphöll Íslands og hefur eignarhald erlendra fjárfesta lítið aukist frá árslokum 2002. Þetta kemur fram í könnun sem Kauphöllin hefur gert og birtist í nýjustu Kauphallartíðindum. Inni í þessari tölu eru bréf vistuð á safnreikningum. Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um safnreikninga en draga má þó þær ályktanir að megnið af þeirri tölu liggi hjá erlendum aðilum. Hlutfall safnreikninganna einna og sér í lok september var rúmlega 4%. Það kemur nokkuð á óvart að eignarhald erlendra fjárfesta hafi ekki aukist meira en raun ber vitni þar sem Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 181% á þessum tíma og hefur hækkunin verið mun meiri en á öðrum mörkuðum.

Varðandi flokkun félaga í erlend og innlend félög styðst Verðbréfaskráningin við ríkisfang félags samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra.

"Mikið hefur verið fjallað um þröngt eignarhald á íslenskum hlutabréfum og hversu stórt hlutverk bankarnir spila á markaðnum. Einnig hefur verið látið að því liggja að eignatengsl hér á landi séu meiri en annars staðar. Því er fróðlegt að vita hvernig íslenski markaðurinn kemur út í samanburði við aðra evrópska," segir í Kauphallartíðindum..

Ennfremur vekur athygli að hlutur einstaklinga á markaðnum var 15% í lok september og er hann stærri en hlutur lífeyrissjóðanna. Hlutur einstaklinga er einnig rúmlega tvöfaldur hluturinn sem skráður er á banka og sparisjóði. "Það hefur verið talið að einstaklingar hefðu missti trú á hlutabréfamarkaðnum í niðursveiflunni árið 2000 og því kemur þessi háa hlutdeild nokkuð á óvart. Þó hefur því stundum verið haldið fram að einkenni íslenskra hlutabréfaeigenda sé kannski fyrst og fremst sú tilhneiging að ?kaupa og halda". Það sem gæti ýkt tölur fyrir einstaklingana eru stórir fagfjárfestar sem nota eigin kennitölu í viðskiptum," segir í Kauphallartíðindum.

Ef litið er á brúttó fjölda þeirra sem áttu hlutabréf í lok 2002 voru þeir 167 þúsund (einstaklingar og fyrirtæki) en hafði fækkað um rúm 18 % ári síðar. Þrátt fyrir að fjöldi einstaklinga hafi minnkað nokkuð hefur eignarhlutdeild þeirra ekki lækkað að sama skapi.

Eins og fram kemur hér að ofan er hlutfall banka og sparisjóða aðeins um 6% í lok september og er sú tala nokkru lægri en hún var um síðustu áramót og áramótin þar á undan. Hins vegar hefur hlutfall hlutafélaga fyrir skráðum eignarhlut hækkað verulega en inni í þeirri tölu er gagnkvæmur eignarhlutur félaga. Í greiningunni er ekki leiðrétt fyrir eigin bréfum félaga þannig að eigin bréf bankanna hækka töluna fyrir hlutdeild fjármálafyrirtækja og bréf annarra félaga hækka hlutdeild hlutafélaga.