Fjármálafyrirtækið Exista staðfesti í dag að félagið hefur keypt hlut í finnsku fjármálasamstæðunni Sampo.

Í kjölfar kaupanna verður Exista stærsti hluthafinn í Sampo með 15,5%, á undan finnska ríkinu sem er með 13,6% hlut, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Exista keypti 9,5% hlut af Robert Tchenguiz, einum helsta samstarfsaðila Kaupþings Bretlandi, fyrir 109 milljarða króna. Fyrir átti Exista hlut í Sampo og er heildarverðmæti hlutarins1,9 milljarðar króna, eða rúmlega 170 milljarðar króna.

"Við lítum á þessa fjárfestingu sem kjölfestueign til langs tíma og hún endurspeglar trú okkar á framtíð Sampo sem forystuafls á norrænum markaði. Sampo fellur fullkomlega að áherslum Exista á fjármálaþjónustu og uppfyllir skilyrði okkar um traustan efnahag, sterka markaðsstöðu og öfluga stjórnendur," segir Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista.

Exista hefur tryggt fjármögnun kaupanna með lánssamningum, útgáfu nýrra hluta, eigin bréfum og reiðufé. Í tengslum við kaupin og með hliðsjón af fyrirvörum samningsins, hefur stjórn Exista skuldbundið sig til að nýta að hluta heimild til að gefa út nýja hluti í Exista, sem notaðir verða sem greiðsla í viðskiptunum.

Eftir uppgjör kaupsamningsins mun Tchenguiz Family Trust verða fjórði stærsti hluthafi Exista með um 5%, sem er að verðmæti um 14 milljarðar króna. Mun Robert Tchenguiz væntanlega taka sæti í stjórn Exista eftir aðalfund félagsins í mars.