Afkoma Stork BV fyrir árið 2010 batnaði nokkuð frá árinu á undan en velta fyrirtækisins er 1.669 milljónir evra eða um 271 milljarður íslenskra króna. Tekjur Stork jukust um 7% á síðasta ári og hækkar framlegð töluvert eða úr 118 milljónum evra, 19 milljörðum króna, í 156 milljónir evra eða 25 milljarða króna.

28 milljarða virði

Stork BV er ein af þremur kjarnafjárfestingum í eigu Eyris og á félagið 17% hlut á móti breska fjárfestingarfélaginu Candover. Verðmæti eignarhlutar Eyris í Stork er metið á tæpar 174 milljónir evra eða um 28 milljarða íslenskra króna en var um 26,6 milljarðar íslenskra króna í lok árs 2009.

Tvö ólík fyrirtæki undirsama hatti

Stork er skipt upp í tvö mjög ólík fyrirtæki, Stork Technical Services, sem einbeitir sér að búnaði fyrir orkuiðnað, og Fokker Technologies, sem þjónustar flugvélar, og er full uppskipting á félögunum að klárast. Sölu eigna utan þessara sviða lauk á síðasta ári og er nú stefnt að frekari vexti þessara eininga í sitt hvoru lagi, bæði með innri og ytri vexti. Skuldsetning hefur minnkað undanfarið og stendur Stork fjárhagslega sterkt en skuldir eru um tvöfaldur rekstrarhagnaður þess. Hjá Stork vinna um 14.000 starfsmenn. Velta, pantanir, rekstrarhagnaður og sjóðsstreymi síðari hluta 2010 gáfu tilefni til jákvæðra horfa, bæði í rekstri Stork sem og almennt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.