*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 20. júlí 2018 09:13

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu 8,6%

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu jókst milli ára en hann nam 8,6% 2017 en 8,1% 2016.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bráðabirgðaniðurstöður ferðaþjónustureikninga gefa til kynna að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 8,6% árið 2017. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustunnar 8,1% árið 2016 og 6,2% árið 2015. Aukning í hlutdeild af landsframleiðslu var nokkuð minni árið 2017 en árin 2015 og 2016 en aftur á móti sambærileg því sem hún var árin 2012 til 2014. Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar.

Alls voru komur erlendra ferðamanna hingað til lands 2.690.465 árið 2017 sem var 25,4% aukning frá fyrra ári. Flestir ferðamenn eru gistifarþegar sem koma til landsins með millilandaflugi. Gistifarþegum fjölgaði um 24,1% sem er mun meiri aukning en í fjölda gistinátta sem fjölgaði um 7,3%.