*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 16. júní 2020 09:25

Hlutur ferðaþjónustu lítið breyst

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 8% árið 2019 en 8,1% frá 2016-2018 og hefur því lítið breyst síðustu 4 ár.

Ritstjórn
Hagstofan er til húsa í Borgartúni.
Haraldur Guðjónsson

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 8,0% árið 2019 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga. Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustunnar 8,1% árin 2016, 2017 og 2018 samkvæmt endurskoðuðu mati. Hlutur ferðaþjónustu hefur því nánast staðið í stað síðan 2016. Ferðaþjónustureikningar taka til útgjalda innlendra sem og erlendra ferðamanna. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Alls voru komur erlendra ferðamanna hingað til lands tæplega 2,6 milljónir árið 2019 sem var 8,7% fækkun frá fyrra ári. Flestir ferðamenn eru gistifarþegar sem koma til landsins með millilandaflugi. Gistifarþegum fækkaði um 14,1% árið 2019 en gistinóttum fækkaði einungis um 1,7%. Til samanburðar þá fjölgaði gistifarþegum um 5,3% árið 2018 en gistinóttum um 2,3%.

Heildarútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu 383,4 milljörðum króna árið 2019 samanborið við 394,2 milljarða króna árið 2018. Tæpur fjórðungur útgjaldanna var vegna kaupa á gistiþjónustu eða 86,9 milljarðar króna. 

Þá greiddu erlendir ferðamenn 75,7 milljarða til ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda og 63,2 milljarða til innlendra flugfélaga vegna fargjalda hingað til lands og ferða innanlands.