Eignarhlutur FL Group í finnska flugfélaginu Finnair eykst úr 12% í 23% með sölunni á 22,6% hlut sínum í Straumi-Burðarási, en fjárfestingabankinn átti 11% hlut í félaginu.

Tilkynnt var um söluna í dag og var að hluta til greitt fyrir hlutinn í Straumi-Burðarási með bréfum í Finnair. Alls kaupir Straumur-Burðarás 1.025.554.736 hluti í sjálfum sér, eða tæplega 10% af hlutafénu.

Aðrir fjárfestar kaupa samanlagt 1.313.309.504 hluti, eða tæplega 13% af hlutafénu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Enginn fjárfestanna fer yfir 5% flöggunarmörk.

Kaupendur greiða 18 krónur fyrir hvern hlut og er heildarkaupverðið því um 42,1 milljarður króna. Kaupverðið greiðist með um 28,3 milljörðum króna í reiðufé, um 10,2 milljarðar króna greiðast með hlutum í finnska flugfélaginu Finnair og um 3,5 milljarðar króna greiðast með hlutum í skráðum íslenskum félögum.

Finnska ríkið á yfir 50% í Finnair og hefur gefið kynna að hlutur þess verði ekki minnkaður í náinni framtíð.

FL Group og Hannes Smárason eru fruminnherjar í Straumi-Burðarási. Kaupin eru gerð með fyrirvara um fjármögnun en stefnt er að því að ljúka viðskiptunum þann 22. desember næstkomandi. Fyrirtækjasvið Straums-Burðaráss hafði milligöngu um viðskiptin.