Tæplega 62% hlutur Fons Eignarhaldsfélags í Plastprenti er nú í sölumeðferð hjá MP Fjárfestingarbanka hf. samkvæmt tilkynningu frá bankanum.

Fons eignarhaldsfélag, sem er í eigu þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, er alþjóðlegt fjárfestingafélag sem sérhæfir sig í fjárfestingum í fyrirtækjum með mikla framtíðarmöguleika til vaxtar og hagræðingar.

Plastprent hf. er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu plastumbúða og plastfilma. Einnig býður fyrirtækið skyldar vörur til reksturs og endursölu. Plastprent leggur áherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum vörur og þjónustu sem mæta ströngustu kröfum um gæði og samkeppnishæft verð.

Plastprent velti um tveimur og hálfum milljarði króna árið 2005. Sífellt stærri hluti af starfsemi Plastprents hefur farið fram erlendis en undanfarin ár hefur félagið byggt upp starfsemi í Lettlandi og Litháen. Þá stendur yfir áreiðanleikakönnun vegna kaupa fyrirtækisins á verksmiðju í Makedóníu. Áætlaður vöxtur Plastprents erlendis er um 20-30% á ári og horfur eru á að tæplega helmingur tekna fyrirtækisins komi erlendis frá á þessu ári.