Hugverk og hugverkaréttindi hafa fengið meira vægi í umræðu sérfræðinga og fræðimanna að undanförnu, bæði í háskólasamfélaginu sem og atvinnulífinu og ekki að ástæðulausu. Margir eru þess fullvissir að hugverk spili nú æ stærra hlutverk í íslenska hagkerfinu og það hlutfall komi til með aukast enn frekar í framtíðinni. Þar eru hugverkaréttindi í lykilhlutverki en segja má að þar sé um að ræða þau tól sem nauðsynleg eru til að vernda þessa nýju auðlind og hámarkaverðmæti hennar.

Að sögn Jóns Gunnarssonar, sérfræðings og samskiptafulltrúa hjá Einkaleyfastofu, er íslenskt hagkerfi að færa sig úr því að byggjast nær eingöngu á náttúrulegum auðlindum yfir í að samanstanda meir og meir af hugviti og hugverkum. Vegna þessa er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að fyrirtæki séu á varðbergi og verndi þau verðmæti sem skapast í gegnum hugvit. Hann segist hafa orðið var við skort á þekkingu á hugverkaréttindum meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi og segir stjórnendur ekki alltaf gera sér grein fyrir þeim verðmætum sem felist innanveggja fyrirtækja þeirra.

Ótæmanleg og sjálfbær auðlind

Jón segir ýmsar ástæður fyrir því að málefni tengd hugverkum séu alltaf að verða mikilvægari. „Fólk hefur ef til vill orðið vart við aukna umræðu um þessi málefni að undanförnu, t.d. í gegnum X-Hugvit, átak Samtaka iðnaðarins; Mckinsey-skýrsluna og tengda skýrslu Viðskiptaráðs sem fjalla um hvaðan framtíðar útflutningstekjur og hagvöxtur á Íslandi muni koma á næstu árum. Það er ljóst að hér er um að ræða ótæmanlega og sjálfbæra auðlind sem er byrjuð að spila æ stærra hlutverk í íslensku hagkerfi.

Hlutur hugverka og óáþreifanlegra eigna fyrirtækja og stofnanna stækkar stöðugt í Evrópu og þar á meðal á Íslandi og það þarf að veita þessum málum sérstakan gaum á komandi misserum.

Nánar er fjallað um málið í VIðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.