Mikil óvissa hefur ríkt um tónlistariðnaðinn að undanförnu og hafa margir áhyggjur af neikvæðum áhrifum ólöglegs niðurhals. Leiða má líkur að því að hlutverki plötufyrirtækjanna sé að breytast, en það breytir því þó ekki að fyrir þessi jólin reyna þau sem áður að koma vörum sínum inn á sem flest heimili, enda eftir talsverðu að seilast.

Stærstur hluti á sölu tónlistar hér á landi fer fram á þremur síðustu mánuðum ársins og má því ljóst vera að nú fer í hönd sá tími er skiptir plötufyrirtæki hvað mestu máli þegar kemur að afkomu. Kakan sem barist er um hefur stækkað undanfarin ár, en á síðasta ári var nam heildarsalan rúmum 770 milljónum króna. Tónlistariðnaðurinn hefur þó tekið hröðum breytingum að undanförnu og má nefna dæmi um að stórhljómsveitir á borð við Radiohead hafa dreift plötu sinni á netinu án útgefanda, en notendur ráða sjálfir hvort eða hvað mikið þeir greiða fyrir plötuna. Þó svo að óraunhæft sé að ætla að þetta dæmi geti átt við um íslenskar aðstæður, þá er ljóst að hlutverk plötuútgefandans mun taka breytingum á einhverjum tímapunkti. Þekktir tónlistarmenn á borð við Mugison hafa til dæmis afráðið að demba sér í jólaplötuflóðið upp á eigin spýtur. Íslensku plötufyrirtækin munu þó ekki láta deigan síga og hyggjast aðlagast breytingum sem fyrirséðar eru og segja að plötuútgefendur muni alltaf eiga sér hlutverk.

Sjá úttekt Vignis A. Guðmundssonar á tónlistarmarkaðinum á miðopnu Viðskiptablaðsins.