Dótturfélag Kviku (áður MP banka), Íslensk eignastýring ehf. hefur selt nær allan hlut félagsins í Íslenskum verðbréfum. Kvika og Íslensk verðbréf hafa staðfest þetta með tilkynningu til fjölmiðla, en Viðskiptablaðið greindi frá málinu á þriðjudag.

Kaupendur eru dreifður hópur fjárfesta auk lykilstarfsmanna Íslenskra verðbréfa, enginn hluthafi fer með yfir 10% eignarhlut. Meðal hluthafa eru Ursus Maritimus Investors sem er félag í eigu Sigurðar Arngrímssonar, Kaldbakur ehf., Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar, KEA svf., Stapi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Kjálkanes ehf. og Salvus ehf. í eigu Sigþórs Jónssonar framkvæmdastjóra ÍV.

Íslensk eignastýring, áðurnefnt dótturfélag Kviku mun áfram eiga 9,99% hlut í félaginu með sölurétti sem það hyggst nýta í náinni framtíð.

Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa segir að „nýtt eignarhald gefur félaginu ýmis tækifæri og gerir því kleift að sækja kröftuglega fram á næstu misserum. Íslensk verðbréf munu taka virkan þátt í íslensku atvinnulífi með víðtækari þjónustu við viðskiptavini félagsins. Styrkur ÍV felst meðal annars í langri og góðri rekstrarsögu ásamt því góða orðspori og sérstöðu sem félagið hefur skapað sér á löngu tímabili.“

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku segir einnig í tilkynningu um málið að „Það er fagnaðarefni að öflugur hópur fjárfesta sem hafa hug á frekari uppbyggingu Íslenskra verðbréfa hafi nú tekið við eignarhaldi á félaginu. Kvika hafði engin áform um sölu Íslenskra verðbréfa en þegar hagstætt tilboð barst frá traustum hópi fjárfesta ákváðum við að fara í viðræður um sölu á hlut bankans. Salan fellur vel að þeirri stefnu sem Kviku hefur verið mörkuð. Við munum áfram leggja höfuðáherslu á innri vöxt og uppbyggingu á eignarstýringu bankans. Við þökkum starfsfólki Íslenskra verðbréfa góð störf og óskum þeim velfarnaðar á þeim spennandi tímum sem nú taka við.“