Arion banki hefur lagt fram tilboð í tæplega 38% hlut Landsbankans í Valitor. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Valitor er dótturfélag Arion banka og á bankinn nú þegar 60,78% hlut í Valitor. Gangi kaupin í gegn mun Arion banki því eiga 98,8% í Valitor.

Landsbankinn, sem er í 98% eigu íslenska ríkisins, auglýsti hlutinn ekki til sölu og leitaði ekki tilboða annarra í opnu söluferli. „Við fengum álitlegt tilboð í okkar hlut í Valitor frá Arion banka," segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, í samtali við Stöð 2.

Seldu hlut í Borgun bak við luktar dyr

Landsbankinn seldi nýverið 31,2% hlut sinn í Borgun, sem gefur út Mastercard. Kaupverðið var 2,2 milljarðar og kaupandinn er Eignarhaldsfélag Borgunar slf. Aðspurður hvernig Landsbankinn hafi vitað að raunhæft verð hafi fengist fyrir hlut bankans í Borgun segir hann að miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem bankinn hafi haft aðgang að telji hann að kaupverðið hafi verið sanngjarnt. „Við Mátum það svo að svona hátt verð skilaði bankanum góðum hagnaði.“

Aðspurður hvers vegna ekki hafi verið ákveðið að auglýsa hlut Landsbankans í Valitor til sölu segir Steinþór: „Valitor er dótturfélag Arion banka. Þar erum við í sama myrkrinu þannig að það eiga sömu sjónarmið við. Það kom álitlegt tilboð og við munum meta það á næstu dögum hvað við getum gert í þeirri stöðu. Sömu ástæður og eiga um Borgun eiga einnig við um Valitor."