Forstjóra og stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið veitt heimild til þess að hefja sölu á hlut félagsins í Hitaveitu Suðurnesja.

Að sögn Guðlaugs G. Sverrissonar, formanns stjórnar OR, hefur ekki verið ákveðið hvort ráðist verður í útboð en allir áhugasamir geta snúið sér með beinum hætti til þeirra en salan á að vera samkvæmt opnu ferli. ,,Við munum auglýsa hlutinn til sölu fljótlega og þá er spurning hver býður best,” sagði Guðlaugur.

Forkaupsréttarákvæði eru í samningunum sem Guðlaugur sagði að yrði gert grein fyrir fljótlega. Hann tók fram að engin tímapressa væri á sölunni.

OR á 16,58% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. OR keypti hlutinn í HS um mitt ár 2007 og er bókfært virði hans 8,67 milljarðar króna.

Allt frá því í febrúar 2008, þegar Orkuveitu Reykjavíkur barst andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins vegna kaupanna, hefur staða eignarhlutarins verði í uppnámi. Samkvæmt niðurstöðu Áfrýjunarnefndar samkeppnismála mátti Orkuveita Reykjavíkur ekki eiga nema 10% í HS. Með því útilokaðist einnig að Orkuveita Reykjavíkur gæti látið áður áformuð kaup á u.þ.b. 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitunni. Ágreiningur Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar er fyrir dómstólum. Guðlaugur sagði að verið væri að leita sátta við Hafnfirðinga um málið en ágreiningur er um hver hefur forræði yfir hlutnum.

Gera má ráð fyrir að þessu 15% hlutur í HS sé einnig til sölu og því má segja að um það bil 32% hlutur í HS bíði nýs eiganda.