*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 11. september 2019 07:29

Hlutur óvertryggðra 77% af nýjum lánum

Vextir bæði verð- og óverðtryggðra fasteignalána hafa verið á niðurleið frá áramótum. Óverðtryggð lán í mikilli sókn.

Ritstjórn
Fasteignalán bankanna til heimila hafa aukist milli mánaða frá því í vor.
vb.is

Nýjustu tölur yfir hrein ný íbúðalán heimilanna sýna að viðsnúningur hefur átt sér stað síðasta vor. Eftir samfelld lækkun á milli mánaða frá byrjun ársins hefur verið um aukningu mánaðarlegra fjárhæða að ræða frá vormánuðum. Frá þessu er greint í síðustu mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs þar sem jafnframt kemur fram að hrein íbúðalán heimilanna hafi numið 92 milljörðum króna fyrstu sjö mánuði ársins. Þar af námu óverðtryggð íbúðalán 71 milljörðum króna og verðtryggð 21 milljörðum. 

Í skýrslunni segir að á undanförnum árum hafi almennt verið meira um að lántakendur kjósi verðtryggð lán hjá bönkunum á breytilegum vaxtakjörum fremur en að festa sér vaxtakjör 5 ár fram í tímann. „Þó hefur sú þróun snúist við það sem af er þessu ári en á fyrstu 7 mánuðum ársins hefur heildarfjárhæð hreinna nýrra lána á föstum vöxtum til fimm ára numið 11,2 milljörðum króna en lán á breytilegum vöxtum 9,4 milljörðum,“ segir í Skýrslunni 

Þá er greint frá því að nafnvextir lægstu vaxtakjara sem í boði séu á verðtryggða hluta húsnæðislánamarkaðsins nú ívið hagstæðari en lægstu óverðtryggðu vaxtakjör ef tekið er mið af opinberum verðbólguspám 12 mánuði fram í tímann. „Frá því í maí síðastliðnum hefur Seðlabanki Íslands lækkað sína meginvexti í þremur atrennum úr 4,5% niður í 3,5%. Lægstu vextir sem í boði eru á óverðtryggðum íbúðalánum hafa fylgt þeirri þróun og lækkað úr 5,6%

í byrjun maí niður í 4,6% nú í byrjun september. Á sama tíma hafa lægstu vextir sem í boði hafa verið hverju sinni af verðtryggðum lánum lækkað um 0,38 prósentustig og standa í dag í 1,77%,“ segir ennfremur í skýrslu Íbúðarlánasjóðar.