Hlutur Salts Investments, eignarhaldsfélags Róberts Wessman, í Bakhjörlum, sem á 38% hlut í Háskólanum í Reykjavík, mun renna til HR. Salt á 78% hlut í Bakhjörlum.Hlutur þess í HR var gegn því skilyrði að HR yrði styrktur um milljarð króna. Um helmingur upphæðarinnar var reiddur af hendi.

„Eftirstöðvar voru valkvæðar, við vorum því ekki bundnir því að greiða viðbótina. Samkomulagið var á þann hátt að ef við myndum ekki borga þá myndum við skila hlutnum. Það sem var búið að greiða yrði einfaldlega gjöf til skólans,“ segir Árni Harðarson forstjóri Salt. Félagið á nú í viðræðum við lánardrottna sína, sem eru Glitnir, Landsbankinn og Straumur, um uppgjör félagsins. Áður hefur komið fram að eigið fé félagsins á síðasta ári var neikvætt um tæpa 9 milljarða. Hlutur Salt í Bakhjörlum er ekki undir í uppgjörinu.