Miðað við dagslokagengi krónu í dag hefur markaðsvirði hvers hlutar í Glitni lækkað um 88% frá því að mörkuðum var lokað á föstudag, að sögn greiningardeildar Kaupþings.

Þar sem Stoðir hf. (áður FL Group) átti stærstan hlut í bankanum á föstudag eða um 29,35%, samkvæmt hluthafaskrá, hefur markaðsvirði hlutar þeirra lækkað um 60,1 milljarð íslenskra króna, að sögn greiningardeildarinnar. Stoðir hafa óskað eftir greiðslustöðvun.

Hlutur Þáttar International, sem skráður var fyrir 5,59% rýrnar um 11,45 milljarða. Og hlutur Saxbygg Invest ehf. rýrnar um 10,2 milljarða, að sögn greiningardeildarinnar.

Seðlabanki Íslands tilkynnti í dag, hann hyggðist eignast 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra.