Hlutur Stoða í danska drykkjavöruframleiðandanum Royal Unibrew gæti minnkað á næstunni en unnið er að uppgjöri við lánveitendur félagsins.

Stoðir eru skráðar fyrir 16,31% hlut í Royal Unibrew og fjármagnaði talsverðan hluta fjárfestinga sinna með lánum. Unnið er að uppgjöri þeirra lánveitinga sem voru með veði í bréfunum sem gæti leitt til þess að veðhafar leystu til sín bréfin.

Um er að ræða bæði danskar og íslenskar fjármálastofnanir. Markaðsvirði Royal Unibrew hefur fjórfaldast undanfarnar vikur en fyrir hálfu ári var gengi félagsins 35 en er nú 175. Hæst fór gengi bréfa félagsins í 175. Hagnaður Stoða er því um 110 milljónir danskra króna eða um 2,7 milljarðar á núverandi gengi.

„Aðgerðir sem ráðist hefur verið í á þessu ári hafa greinilega aukið tiltrú fjárfesta,“ sagði Júlíus Þorfinnsson, talsmaður Stoða, þegar hann var spurður um breytingarnar.

Þegar Stoðir keyptu í félaginu var einmitt lagt að þáverandi stjórnendum að gera þær breytingar sem hafa verið framkvæmdar nú. Stoðir eru langstærsti hluthafinn. Straumur Burðarás Fjárfestingarbanki á 5,24%.