Nokkrir aðilar hafa falast eftir hlut Straums-Burðaráss í Íslandsbanka og komið hefur til tals á meðal stjórnenda og stærstu eigenda bankans að selja hlutinn á næsta ári, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Straumur-Burðarás á 28,5% hlut í Íslandsbanka og er markaðsvirði hlutarins 61 milljarður króna, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands. Markaðsvirði Íslandsbanka um miðjan dag í gær var rúmlega 214 milljarðar króna.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að aðilar tengdir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, og Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, hafi haft áhuga á því að kaupa hlutinn, og Kauþing banki hefur einnig verið nefndur í því samhengi. Viðmælendur blaðsins segja að ef það reynist rétt að Kauþing hafi spurst fyrir um hlut Straums-Burðaráss í Íslandsbanka þá hafi það líklega verið fyrir hönd þriðja aðila. Eftir nýlega hlutafjáraukningu FL Group nemur hlutur félagsins í Íslandsbanka 6,65%. Karl Wernersson, sem á 8,46%, hlut í Íslandsbanka, hefur einnig verið nefndur til sögunnar en það hefur ekki fengist staðfest.

Bréf í Straumi-Burðarási hafa hækkað snarpt síðustu daga og nemur hækkunin rúmlega 8% frá 10. nóvember. Ekki hefur fengist skýring á hækkuninni og telja sérfræðingar að frétta sé að vænta að bankanum á næstu vikum og mánuðum. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja að spákaupmennska hafi verið ástæðan fyrir hækkun bréfanna. "Það eru væntingar um uppstokkun í bankakerfinu og búast menn við að Straumur-Burðarás verði þátttakandi í þeirri uppstokkun," sagði einn heimildarmaður Viðskiptablaðins sem þekkir vel til innan Straums-Burðaráss.

Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Staums-Burðaráss. Getgátur eru um það "á götunni" að bankinn verði sameinaður Landsbankanum. Einnig hefur verið talað um að bankinn reyni að taka yfir Íslandsbanka. Flestir viðmælendur Viðskiptablaðsins töldu að sá möguleiki væri ekki í myndinni. Flestir eru sammála um að bankinn selji hlutinn. Einn heimildarmaður blaðsins sagði þó að bankinn gæti haldið hlutnum til að tryggja að núverandi jafnvægi ríki í bankakerfinu ef aðilar tengdir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Hannesi Smárasyni, eða jafnvel FL Group, geri tilraun til þess að taka yfir Íslandsbanka. Þeir viðmælendur sem Viðskiptablaðið hafði samband við þekkja vel til innan bankanna en vildu ekki láta nafns síns getið.