*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 21. júní 2017 12:37

Hlutverk einstakra stofnana verði skýrt

Umhverfisstofnun bendir á að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi falla undir verksvið Matvælastofnunnar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá í gær var fellt úr gildi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi eins og Viðskiptablaðið hefur áður sagt frá.

Umhverfisstofnun bendir á, í fréttatilkynningu frá stofnunni, að þau atriði sem tilgreind eru sem helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi, þar á meðal aukin hætta á fisksjúkdómum, falla undir verksvið Matvælastofnunar. „Ekki koma fram ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfi Umhverfisstofnunar,“ segir í frétt á vef stofnunarinnar. 

Í fyrra veitti Umhverfisstofnun Háafelli starfsleyfi til að hefja ársframleiðslu á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski í Ísafjarðardjúpi. Hópur aðila til að mynda Náttúruverndarsamtök Íslands, Landssamband veiðifélaga og landeigandi á svæðinu, kærði veitingu leyfisins. 

Í rökstuðningi kærenda var meðal annars bent á að þau töldu að Umhverfisstofnun hafi ekki uppfyllt málsmeðferðarákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og töldu þeir að rökstuðningi á rannsókn stofnunarinnar væri ábótavant. Úrskurðarnefndin ákvað að gera fleiri athugasemdir við feril málsins. Haft eftir Óttari Yngvasyni, lögmanni kærenda í Fréttablaðinu, að miðað við forsendur nefndarinnar sé þetta tímamótaúrskurður í þessu sjókvíaeldismálum.