Bandarísk fangelsisgengi og meðlimir þeirra hafa það orð á sér að vera harðsvíruðustu glæpamenn sem til eru, fullir kynþáttafordóma og algerlega óhræddir við að meiða, limlesta og myrða. Þetta orðspor er alls ekki óverðskuldað, en í nýrri bók eftir David Skarbek, The Social Order of the Underworld, fer hann yfir þá hvata sem liggja að baki gengjakerfinu og hvernig það varð til.

Hann segir að gengi, eða skipulagðir hópar fanga, hafi í raun ekki verið til í Bandaríkjunum fyrr en á sjötta áratugnum þegar föngum fór mjög fjölgandi. Þá hættu óformlegar, framkvæmdavaldslausu reglur fangelsissamfélagsins að virka sem skyldi. Bæði var það vegna þess að margir nýir fangar þekktu þær ekki, en einnig vegna þess að erfiðara varð að vita hvert orðspor einstaklinga var. Þegar fangar í einu fangelsi eru orðnir mörg þúsund talsins þá getur enginn þekkt alla aðra fanga.

Skarbek segir að gengin hafi verið viðbrögð við þessari breytingu. Þau hafi í raun tekið að sér hlutverk framkvæmdavaldsins í samfélagi sem var búið að ná ákveðinni stærð. Gengin eru vissulega ofbeldisfull og hættuleg - Skarbek er ekki að bera blak af því- en þau veita ákveðna þjónustu í samfélagi fanganna, hversu geðsleg óbreyttum borgurum þykir sú þjónusta. Þau sjá t.d. um að afla og miðla fíkniefnum og tóbaki sem og öðrum vörum sem erfitt eða ómögulegt er að afla með öðrum hætti. Þau gegna líka hlutverki lögreglu. Öll gengi hafa reglur sem kveða á um hvað má og hvað má ekki gera og segir hann að þau séu í raun mjög virk í því að framfylgja þessum reglum meðal eigin meðlima.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, sem kom út með Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .