Þrátt fyrir afnám hafta á flestar fjármagnshreyfingar milli landa og fátíð inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hefur gengi krónu verið tiltölulega stöðugt frá miðju ári. Gengi krónu er þar að auki nánast það sama í árslok og það var í byrjun árs. Greining Íslandsbanka segir það til marks um vel heppnað haftaafnám og vísbendingu um að allgott jafnvægi sé þessa dagana í gjaldeyrisflæði til og frá landinu, þar sem útflæði um fjármagnsjöfnuð ásamt gjaldeyriskaupum Seðlabankans fyrr á árinu vega upp innflæði vegna viðskiptaafgangs.

Ennfremur að skipta megi árinu í þrjá hluta hvað varðar umhverfi gjaldeyrismarkaðar. Frá áramótum og fram undir miðjan marsmánuð hafi umhverfið verið með svipuðum hætti og árin á undan, þar sem umfangsmikil gjaldeyrishöft voru við lýði og Seðlabankinn var tiltölulega virkur þátttakandi á millibankamarkaði. Eftir haftalosun um miðjan mars tók við tímabil fram til maíloka þar sem flestar tegundir fjármagnsflutninga voru frjálsar en Seðlabankinn var enn nokkuð virkur gjaldeyriskaupandi á markaði. Frá júníbyrjun hafi bankinn hins vegar haft lítil afskipti af markaðinum, og þá fyrst og fremst í því skyni að stöðva spíralmyndun þar sem veruleg gengisbreyting hefur farið saman við litlar raunverulegar gjaldeyrishreyfingar.

Hlutverk Seðlabankans á markaði hafi breyst mikið á árinu. Árið 2016 átti bankinn hlutdeild að 55% allra viðskipta á millibankamarkaði með gjaldeyri. Á fyrri helmingi þessa árs var þetta hlutfall tæplega 30%, en frá miðju ári hefur bankinn aðeins átt hluta að tæplega 2% viðskipta á markaði.

„Sé horft á árið 2017 í heild er gengi krónu aftur á móti nánast hið sama nú í lok árs og það var fyrir ári síðan, þótt nokkrar sveiflur hafi verið á milli mánaða. Rétt er að rifja upp að ekki eru mörg misseri síðan almennt var talið mjög líklegt að haftaafléttingu myndi fylgja veruleg veiking krónu. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að haftaafléttingin hefur orðið til þess að styrkja og dýpka gjaldeyrismarkað, og gjaldeyrisflæði til og frá landinu hefur í stórum dráttum verið í jafnvægi.“