Mikil uppstokkun varð í stjórn Vátryggingafélags Íslands á hluthafafundi sem fór fram á þriðjudaginn. Í nýrri stjórn sitja Herdís Fjeldsted, Helga Jónsdóttir, Bjarni Brynjólfsson, Guðmundur Þórðarson og Jostein Sørvoll. Þá voru Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir og Andri Gunnarsson kjörin varamenn stjórnar. Á fundinum var Herdís Dröfn kjörin formaður stjórnarinnar og Jostein Sørvoll varaformaður.

Sørvoll er menntaður tryggingastærðfræðingur með 40 ára reynslu af norskum og alþjóðlegum tryggingarekstri. Hann hefur gegnt stjórnunarstörfum í norska tryggingafélaginu Storebrand og starfað sem forstjóri Norske Liv og SwissRe Norway.

Rétt eftir aldamót stofnaði hann, ásamt öðrum, tryggingafélagið Protector Forsikring, sem í dag er sjöunda stærsta tryggingafélag Noregs og með starfsemi í fimm löndum. Markaðsvirði Forsikring er um 85 milljarðar króna, sem er fjórfalt markaðsvirði VÍS. Undanfarin tíu ár hefur samsett hlutfall Protector verið um 88%

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sørvoll að VÍS hafi lengi verið stór hluthafi í Protector. Þegar Protector hóf rekstur hafi VÍS verið stóri bróðirinn, en síðan hafi Protektor vaxið ævintýralega. „En félögin starfa auðvitað á gerólíkum mörkuðum og í ólíkum geirum, svo ég er ekki að segja að það sama geti gerst við VÍS,“ segir Sørvoll léttur í bragði.

Engar skyndilausnir

„Mér sýnist VÍS vera frábært fyrirtæki,“ segir Sørvoll. Hann segir að honum virðist ekkert sérstakt vera að fyrirtækinu, fyrir utan það að fjárfestingarstefna fyrirtækisins hafi valdið hluthöfum áhyggjum borið saman við fjárfestingar keppinauta.

„Ég held að það séu engar skyndilausnir til að breyta þessu,“ segir hann. „Þetta snýst um að vinna með stjórnendum og stjórnendur verða að laga þetta. Stjórn fyrirtækis getur ekki stjórnað því frá degi til dags. Ég sé ekki fyrir neina byltingu, en ég sé það fyrir að við munum vinna saman og breyta mörgum litlum hlutum og vonandi munum við sjá árangur á því eftir hálft ár eða eitt ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .