Hafrannsóknastofnun birti í lok síðustu viku skýrslu um stöðu umhverfis og vistkerfa í hafinu við Ísland og horfur næstu áratuga.

Skýrslan er ítarleg og áhugaverð samantekt þar sem kennir margra grasa, en hér verður athyglinni beint að kaflanum um þorskinn.

„Á Íslandsmiðum er tegundin þorskur nálægt miðju útbreiðslusvæðis tegundarinnar og á kjörsvæði sínu bæði landfræðilega og m.t.t. hitastigs,“ segir þar.

Einnig segir að hlýnun hafsvæðanna umhverfis Íslands geti „haft mikil áhrif á útbreiðslu og framleiðni íslenska þorskstofnsins, m.a. vegna breytinga sem verða á grænlenska landgrunninu.“

Tímabil hlýinda hafi haft jákvæð áhrif á bæði stofnstærð og framleiðni þorskstofnsins og að einhverju leyti hafi slík áhrif komið fram við þær hlýju aðstæður sem nú ríkja á Íslandsmiðum.

Aukin samkeppni

Almennt megi búast við að í köldum sjó sé vöxtur þorsks sé hægari. Lægri meðalþyngdir á hlýjum tímabilum geti síðan bent til aukinnar samkeppni um fæðu. Þannig hafi bæði loðnustofninn hafi minnkandi frá aldamótum og lítið verið af rækju á uppeldissvæðum þorsks fyrir norðan land.

Bent er á að dánartíðni yngstu árganga þorsks af völdum afráns sé „líklega mest þegar stofn afræningja er stór, fæðuframboð afræningja lítið, og vöxtur þorskungviðis hægur.“

Hærri sjávarhiti auki síðan orkuþörf afræningja sem geti síðan aukið afránstíðni á ungþorski, en undanfarin 15 ár hafi aðstæður á Íslandsmiðum líklega stuðlað að miklum náttúrulegum afföllum á ungþorski. Hitastig hefur verið hátt, seiðin verið smá og stofn helsta afræningjans, sem reyndar sé þorskurinn sjálfur, hafi verið stór.

Arfblendnir í meirihluta

Í skýrslunni er minnst á að þorskur við Ísland greinist í tvo hópa, grunnfarsþorsk og djúpfarsþorsk, sem sýni ólíkt atferli og útbreiðslu á fæðuöflunartíma. Þetta geti verið lykilatriði varðandi þol stofnsins gagnvart umhverfisbreytingum, en um og yfir helmingur íslensks hrygningarþorsks sé þó arfblendinn. Sá hópur sýni fjölbreytilegri fæðugöngur en arfhreinir fiskar, en hátt hlutfall arfblendinna fiska geti verið hagstætt í sveiflukenndu umhverfi þorsksins.

Ekkert bólar á Grænlandsgöngum

Hér fyrr á árum þekktust svonefndar Grænlandsgöngur sem áttu sinn þátt í því hve mikið veiddist mikið af þorski hér við land. Nú virðist skilyrði fyrir slíkum atburðum hafa verið fyrir hendi í rúman áratug, að minnsta kosti hvað varðar „hitastig sjávar við Grænland og stærð og aldurssamsetningu hrygningarstofnsins við Ísland.“

Þrátt fyrir hagstæðar umhverfisaðstæður hafi þó enn „ekki komið fram vísbendingar um vaxandi þorskgengd við Vestur-Grænland eða umtalsverðar göngur þaðan til Íslands og alls ekki í líkingu við það sem var á hlýju árunum um miðbik síðustu aldar.“