Hin þekkta sænska tískuvöruverslun Hennes og Mauritz (H&M) getur fagnað góðum ársfjórðungi. Hagnaður keðjunnar jókst um 20% á tímabilinu og var 5,2 milljarðar sænskra króna samanborið við 4,3 milljarða á síðasta ári.

Sala fyrirtækisins jókst um 15% á tímabilinu og var andvirði 31,7 milljarða sænskra króna. Á vef breska ríkisútvarpsins BBC er haft eftir forsvarsmönnum H&M að stefnt sé á að opna 275 H&M búðir til viðbótar, víðsvegar um heim, á þessu ári.

H&M er næststærsta fataverslunarkeðja heims og eru verslanirnar nú 2.575 talsins. Þær má finna í 44 löndum, allt frá Evrópu til Bandaríkjanna til Kína. H&M hefur þó enn ekki opnað hér á Íslandi þó versluninni yrði án efa tekið með opnum örmum.