Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) hefur þegar grætt vel á keppninni í Suður-Afríku, en heimsmeistarakeppnin er aðaltekjulind heimssambandsins. Það skilaði um 25 milljarða króna hagnaði í fyrra og jók eigið fé sitt í fyrsta sinn í yfir einn milljarð dala, 129 milljarða íslenskra króna.

Við kynningu á ársreikningi sambandsins í mars síðastliðnum sagði Sepp Blatter, forseti FIFA, að niðurstöðurnar sýndu að ákvörðun um að halda heimsmeistaramótið í Suður- Afríku hefði verið „góð fjárhagsleg og markaðsleg ákvörðun“.

Þorri ágóðans er vegna sölu á sjónvarpsrétti og risavaxinna auglýsingasamninga.

Þessi góða fjárhagsstaða FIFA gerir það að verkum að það verður eftir nægu að slægjast fyrir liðin 32 sem taka þátt í mótinu. Heildarverðlaunaféð er um 54 milljarðar króna, sem er 60 prósent hærra en það var í Þýskalandi fyrir fjórum árum.

Áður en mótið hófst fengu allar þátttökuþjóðirnar um 130 milljónir króna beingreiðslu til að hjálpa til við undirbúning. Þau lið sem komast upp úr sínum riðlum fá síðan rúman milljarð króna fyrir þann árangur.

Rúmir tveir milljarðar skila sér í kassann ef landslið nær í átta liða úrslit og síðan hækka greiðslur koll af kolli eftir því sem lið nær lengra. Heimsmeistararnir fá allt í allt tæpa fjóra milljarða króna fyrir árangur sinn.