Hagkaup í Kringlunni minnkar við sig og verður þeim hluta verslunarinnar sem er á annarri hæð verslunarmiðstöðvarinnar lokað. Í stórann hluta af því húsnæði mun hins vegar H&M flytja þegar verslun fyrirtækisins opnar í Kringlunni á haustmánuðum 2017.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reitum um endurnýjaðan leigusamning Hagkaupa í Kringlunni sem gildir til ársins 2028.

Alþjóðlegt fatamerki við hlið H&M

Verður verslun Hagkaupa á 1. hæð endurnýjuð og er ráðgert að opna nýja og endurbætta verslun í 3.600 fermetrum á 1. hæð einnig á haustmánuðum næsta árs.

Í tilkynningunni segir jafnframt að samningar séu á lokastigi við alþjóðlegt fatamerki um að reka 1.000 fm verslun við hlið H&M á 2. hæð í norðurenda Kringlunnar.