Sala H&M á Íslandi á síðasta fjárhagsári, sem lauk í nóvember, nam 3,2 milljörðum króna og dróst saman um 1,8% frá fyrra ári. Hagnaður fataverslanakeðjunnar jókst þó úr 49,7 milljónum í 61,6 milljónir milli ára.

Launakostnaður félagsins nam 701 milljón króna, samanborið við 753 milljónir árið áður. Ársverkum fækkaði úr 140 í 107 á milli ára.

Leigugreiðslur félagsins, sem reiknast út frá veltu verslana, námu 172,2 milljónum króna á árinu 2020. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að árleg leiguskuldbinding næstu fimm árin verði 202,7 milljónir króna.

Eignir íslenska dótturfélagsins námu 1,1 milljarði, eigið fé 240 milljónum og skuldir voru 834 milljónir í lok nóvember síðastliðnum.

Viðskiptablaðið sagði frá því í byrjun júlí að sala H&M á Íslandi hafi numið tæplega 1,8 milljörðum króna á tímabilinu desember til maí síðastliðnum, samkvæmt árshlutareikningi alþjóðlegu samstæðunnar. Það var um 36% hækkun frá sama tímabili árið áður.